Forsíða Fréttir
Hvað þýðir rauði þríhyrningurinn?
Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í fylgiseðli sem er í pakkningum flestra lyfja. Lesið því allan fylgiseðilinn vandlega. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.
Mörg lyf geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti. Þetta skal haft í huga þar sem óskertrar árvekni er þörf, t.d. við akstur, notkun véla og önnur störf sem haft geta hættu í för með sér.
Pakkningar margra lyfja sem geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti, eru auðkenndar rauðum þríhyrningi. Því fer þó fjarri að pakkningar allra lyfja sem geta haft slík áhrif séu auðkenndar með þessum hætti. Ein ástæða þess er sú að lyf geta haft einstaklingsbundnar aukaverkanir. Lyf sem hjá sumum sjúklingum veldur t.d. syfju, svima eða skertri samhæfingu hreyfinga hefur ekki endilega sömu áhrif hjá öðrum sjúklingum.
Nánar
 
Eru fylgiseðlar lyfja mikilvægir?

Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör en það á þó ekki við um fylgiseðla lyfja því þeir eru mikilvægir, til að tryggja rétta notkun lyfja. Mikilvægi fylgiseðlanna fer einnig vaxandi eftir því sem ný lyf koma fyrr á markað, því upplýsingar um ný lyf breytast oft mjög hratt, þ.m.t. upplýsingar sem varða öryggi við notkun lyfsins. Ennfremur endurspeglast mikilvægi fylgiseðlanna í því að notendur lyfja sækjast sem betur fer í auknum mæli eftir nýjustu og bestu upplýsingum um lyf sem þeir nota, eða eiga fyrir höndum að nota. Upplýstur notandi aflar sér gjarnan þekkingar áður en hann leitar til læknis eða lyfjafræðings og er þannig betur í stakk búinn til að taka þátt í ákvörðun um lyfjameðferð sem best hentar hverjum og einum.
Lyf eru yfirleitt mikilvirk og vandmeðfarin. Lyfjum er ætlað að hafa mikil áhrif, t.d. á líkamsstarfsemi, eða með því að eyða sjúkdómsvöldum. Bóluefni eru lyf sem koma í veg fyrir sjúkdóma. Sum lyf eru notuð við rannsóknir og þannig mætti áfram telja.

Nánar