Við tökum við lyfjum til eyðingar á ný

Vegna færri smita í þjóðfélaginu er nú komið að því að fara aftur að taka við lyfjum frá viðskiptavinum til eyðingar sbr. 25. gr. reglugerðar nr. 1266/2017 um lyfjaávísanir og afhendingu lyfja.

Til að svo geti orðið skal hver og ein lyfjabúð koma sér upp verklagi sem verndar starfsfólk gegn hugsanlegu smiti. Til dæmis með því að nota hanska eða koma upp íláti, kassa eða fötu, sem starfsmaður setur á afgreiðsluborðið og viðskiptavinur setur lyfin þar í. Starfsmaðurinn fer síðan rakleitt að pokanum eða kassanum baka til í lyfjabúðinni, þar sem þeim lyfjum er safnað saman sem eiga að fara til eyðingar. Að lokum eru hendur þvegnar vel.

Lyfjabúðir geta aftur farið að taka við lyfjum til eyðingar frá og með 8. maí nk. að því gefnu að búið sé að koma á öruggu verklagi.

Mánudaginn 11. maí nk. mun birtast frétt á vef Lyfjastofnunar um að nú sé aftur hægt að skila lyfjum til eyðingar í apótek.

Hjálpumst að með hreinlætið að vopni

Við hjá Reykjavíkur Apóteki viljum minna á mikilvægi góðs og reglulegs handþvottar á meðan COVID19 veiran herjar á landann og heiminn allan. Embætti Landlæknis hefur einnig gefið út haldgóðar leiðbeiningar um hvernig megi draga verulega úr sýkingarhættu vegna farsótta. Í apótekum okkar á Seljavegi og í Skeifunni höfum við einnig sett upp veggspjöld sem gott er að styðjast við þegar kemur að forvörnum:

Einfalt er að draga mjög úr sýkingahættu vegna kórónuveirunnar COVID19 með auknu hreinlæti og varfærni. Vönduð handhreinsun er þar lykilatriði, en sömuleiðis er gott að forðast að snerta eigið andlit með höndum og gæta varúðar á almannafæri.

Við hvetjum þá einstaklinga sem finna fyrir einkennum eða veikindum til að hringja í síma 1700 (fyrir erlend símanúmer +354 544-4113) varðandi nánari upplýsingar og hvernig þeir eigi að nálgast heilbrigðiskerfið.

Reykjavíkur Apótek opnað í Skeifunni

Þann 1. febrúar síðasliðinn, opnaði nýtt og glæsilegt apótek sem staðsett er á besta stað í Skeifunni, nánar tiltekið í Skeifunni 11b. Starfsfólk okkar í apótekinu í gamla Héðinshúsinu að Seljavegi 2 mun að sjálfsögðu standa vaktina áfram.

Ásamt því að sjá um hina hefðbundu afgreiðslu lyfja, er hægt að finna eitthvað fyrir alla í hinu nýja apóteki og er til að mynda lögð sérstök áhersla á vörur fyrir börn og mæður þeirra. Sömuleiðis er Reykjavíkur Apótek eini aðilinn á Íslandi sem má selja frábæru húðvörurnar frá franska gæðamerkinu Vichy og er hægt að finna þær, ásamt La Roche-Posey vörunum í svokölluðu Derma Center innst í apótekinu. Húðsjúkdómalæknar um allan heima dásama þessar vörur og verður spennandi að kynna landsmönnum fyrir merkjunum á ný eftir nokkra fjarveru í hillum verslana hér á landi.

Verið velkomið í apótek okkar í Skeifunni 11b. Við tökum vel á móti ykkur alla virka daga frá klukkan 9 til 18, laugardaga frá klukkan 10 til 17 og nú einnig í Skeifunni á sunnudögum frá klukkan 12 til 17.

Eru fylgiseðlar lyfja mikilvægir?

Þegar stórt er spurt verður stundum fátt um svör en það á þó ekki við um fylgiseðla lyfja því þeir eru mikilvægir til að tryggja rétta notkun lyfja. Mikilvægi fylgiseðlanna fer einnig vaxandi eftir því sem ný lyf koma fyrr á markað, því upplýsingar um ný lyf breytast oft mjög hratt, þ.m.t. upplýsingar sem varða öryggi við notkun lyfsins. Ennfremur endurspeglast mikilvægið í því að notendur lyfja sækjast sem betur fer í auknum mæli eftir nýjustu og bestu upplýsingum um lyf sem þeir nota, eða eiga fyrir höndum að nota. Upplýstur notandi aflar sér gjarnan þekkingar áður en hann leitar til læknis eða lyfjafræðings og er þannig betur í stakk búinn til að taka þátt í ákvörðun um lyfjameðferð sem best hentar hverjum og einum.

Lyf eru yfirleitt mikilvirk og vandmeðfarin. Lyfjum er ætlað að hafa mikil áhrif, t.d. á líkamsstarfsemi, eða með því að eyða sjúkdómsvöldum. Bóluefni eru lyf sem koma í veg fyrir sjúkdóma. Sum lyf eru notuð við rannsóknir og þannig mætti áfram telja.

Stöðugt koma fram nýjar upplýsingar um lyf, bæði vegna nýrra rannsókna og vegna þess að á markað koma ný lyf sem geta milliverkað við önnur lyf séu þau notuð samhliða. Einnig koma fram nýjar upplýsingar þegar lyf eru notuð með öðrum hætti en áður hefur tíðkast, t.d. við öðrum sjúkdómum eða handa öðrum sjúklingahópum. Enn eru t.d. að koma fram nýjar upplýsingar um lyf sem hafa verið fáanleg í meira en 100 ár. Þess vegna eru fylgiseðlar lyfja uppfærðir þegar nýjar upplýsingar koma fram.

Þegar um ný lyf er að ræða eru fylgiseðlar stundum uppfærðir oft á ári. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með breytingum á fylgiseðlum þegar um langtíma lyfjameðferð er að ræða. Útgáfudagsetningar er getið í fylgiseðlum og nýjasta útgáfa þeirra er alltaf á vef Lyfjastofnunar.
Læknar og lyfjafræðingar í lyfjabúðum geta veitt þessar upplýsingar.
Fylgiseðlar veita notanda lyfsins nýjustu og bestu upplýsingar um lyfið, eins og þær liggja fyrir á hverjum tíma, samkvæmt mati sérfræðinga heilbrigðisyfirvalda, hér á landi og í öðrum EES ríkjum.

Mikilvægi þess að notendur lyfja kynni sér vel og vandlega upplýsingar í fylgiseðlunum verður því aldrei ofmetið. Ef þörf er fyrir frekari upplýsingar er mikilvægt að leita til læknis eða lyfjafræðings.

Hvað þýðir rauði þríhyrningurinn?

Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í fylgiseðli sem er í pakkningum flestra lyfja. Lesið því allan fylgiseðilinn vandlega. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Mörg lyf geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti. Þetta skal haft í huga þar sem óskertrar árvekni er þörf, t.d. við akstur, notkun véla og önnur störf sem haft geta hættu í för með sér.
Pakkningar margra lyfja sem geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti, eru auðkenndar rauðum þríhyrningi. Því fer þó fjarri að pakkningar allra lyfja sem geta haft slík áhrif séu auðkenndar með þessum hætti. Ein ástæða þess er sú að lyf geta haft einstaklingsbundnar aukaverkanir. Lyf sem hjá sumum sjúklingum veldur t.d. syfju, svima eða skertri samhæfingu hreyfinga hefur ekki endilega sömu áhrif hjá öðrum sjúklingum.

Til skamms tíma gilti sameiginleg regla á öllum Norðurlöndunum varðandi rauða þríhyrninginn en í Svíþjóð er þetta tákn ekki lengur á pakkningum lyfja. Afleiðing þess er sú að lyf sem eru markaðssett hér á landi í sænsk/íslenskum pakkningum eru nú ekki með rauðum þríhyrningi, jafnvel þótt pakkningarnar hafi áður borið þetta tákn. Þess eru því dæmi að lyfjapakkningar sem áður voru auðkenndar rauðum þríhyrningi séu ekki lengur auðkenndar með þeim hætti, þrátt fyrir að ekkert hafi breyst varðandi lyfið og mögulegar aukaverkanir þess. Með sama hætti kann að vera að lyf sem eru markaðssett hér á landi í pakkningum sem einnig eru notaðar í öðru ríki innan EES séu ekki auðkenndar rauðum þríhyrningi, þótt lyfið geti dregið úr árvekni og viðbragðsflýti.

Þau lyf sem helst geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti eru ýmis sterk verkjalyf, flogaveikilyf, kvíðastillandi lyf og svefnlyf. Áhrif lyfsins á árvekni og viðbragðsflýti geta farið eftir t.d. skammtastærð og því hvort önnur lyf eða áfengi er notað samhliða, auk þess sem þessi áhrif geta verið einstaklingsbundin. Þá kann að vera að áhrifin séu meiri í upphafi meðferðar.