Hver og einn verður að leggja mat á getu sína til aksturs og starfa sem krefjast óskertrar árvekni. Eitt af því sem getur haft áhrif á slíkt er lyf, vegna verkunar sinnar eða aukaverkana. Lýsing á verkun og aukaverkunum er í fylgiseðli sem er í pakkningum flestra lyfja. Lesið því allan fylgiseðilinn vandlega. Ef þörf er á skal ræða þetta við lækni eða lyfjafræðing.

Mörg lyf geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti. Þetta skal haft í huga þar sem óskertrar árvekni er þörf, t.d. við akstur, notkun véla og önnur störf sem haft geta hættu í för með sér.
Pakkningar margra lyfja sem geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti, eru auðkenndar rauðum þríhyrningi. Því fer þó fjarri að pakkningar allra lyfja sem geta haft slík áhrif séu auðkenndar með þessum hætti. Ein ástæða þess er sú að lyf geta haft einstaklingsbundnar aukaverkanir. Lyf sem hjá sumum sjúklingum veldur t.d. syfju, svima eða skertri samhæfingu hreyfinga hefur ekki endilega sömu áhrif hjá öðrum sjúklingum.

Til skamms tíma gilti sameiginleg regla á öllum Norðurlöndunum varðandi rauða þríhyrninginn en í Svíþjóð er þetta tákn ekki lengur á pakkningum lyfja. Afleiðing þess er sú að lyf sem eru markaðssett hér á landi í sænsk/íslenskum pakkningum eru nú ekki með rauðum þríhyrningi, jafnvel þótt pakkningarnar hafi áður borið þetta tákn. Þess eru því dæmi að lyfjapakkningar sem áður voru auðkenndar rauðum þríhyrningi séu ekki lengur auðkenndar með þeim hætti, þrátt fyrir að ekkert hafi breyst varðandi lyfið og mögulegar aukaverkanir þess. Með sama hætti kann að vera að lyf sem eru markaðssett hér á landi í pakkningum sem einnig eru notaðar í öðru ríki innan EES séu ekki auðkenndar rauðum þríhyrningi, þótt lyfið geti dregið úr árvekni og viðbragðsflýti.

Þau lyf sem helst geta dregið úr árvekni og viðbragðsflýti eru ýmis sterk verkjalyf, flogaveikilyf, kvíðastillandi lyf og svefnlyf. Áhrif lyfsins á árvekni og viðbragðsflýti geta farið eftir t.d. skammtastærð og því hvort önnur lyf eða áfengi er notað samhliða, auk þess sem þessi áhrif geta verið einstaklingsbundin. Þá kann að vera að áhrifin séu meiri í upphafi meðferðar.